Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 168/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 168/2021

Þriðjudaginn 20. júlí 2021

A

gegn

Barnavernd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. mars 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B, sem kynnt var kæranda með bréfi, dags. 19. mars 2021, um að aflétta ekki nafnleynd vegna tilkynningar um aðstæður dóttur kæranda. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Barnavernd B barst tilkynning undir nafnleynd þann 15. febrúar 2021. Efni tilkynningar voru áhyggjur af aðstæðum dóttur kæranda stúlkunni, sem þá var í umsjá kæranda og að grunur væri um að faðir stúlkunnar, sem kærandi hafði kært fyrir ofbeldi og upplýst um að væri í neyslu vímuefna, væri með kæranda og dóttur þeirra á D.

Með beiðni lögmanns kæranda til Barnaverndar B dags. 25. febrúar 2021, var þess óskað að nafnleynd tilkynningarinnar yrði aflétt. Í beiðni lögmannsins kemur fram að kærandi telji að um sé að ræða vísvitandi ranga tilkynningu, enda sé enginn fótur fyrir því að foreldrar barnsins hafi umgengist á þessu almanaksári, hvað þá að þau séu saman með barnið hjá sér. Það sem veki þó meiri áhyggjur sé að í tilkynningu komi fram upplýsingar um kæru móður á hendur föður, sem hún hafi ekki upplýst neinn um, og einungis lögmaður hennar, lögregla og barnaverndarnefnd höfðu vitneskju um.

Beiðni lögmannsins, fyrir hönd kæranda, var hafnað með ákvörðun, dags. 19. mars 2021. Í ákvörðun Barnaverndar B kemur eftirfarandi fram, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal virða það ef tilkynnandi óskar nafnleyndar gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þrátt fyrir að ekki sé dregið í efa að forsjáraðila sé mikilvægt að fá að vita hver tilkynnti til Barnaverndar B verður ekki talið að fyrir hendi séu þær „sérstöku ástæður“ sem áskildar eru til þess að aflétta megi nafnleynd sbr. 19. gr. barnverndarlaga nr. 80/2002. Við það mat voru m.a. höfð til hliðsjónar þau sjónarmið sem fram komi í athugasemdum með 19. gr. frumvarps til barnaverndarlaga um vernd tilkynnanda og virkni og árangur í barnaverndarstarfi. Það segir einnig að ákvæði um nafnleynd tilkynnanda í barnaverndarlögum undirstriki sérstöðu barnaverndarmála innan stjórnsýslunnar, að börn eru ekki talin umkomin að gæta hagsmuna sinna sjálf með því að snúa sér til barnaverndaryfirvalda.

Upplýsingar um kæru á hendur föður eru upplýsingar sem móttakandi tilkynningarinnar, starfsmaður Barnaverndar B, skráði í tilkynninguna enda um að ræða upplýsingar sem liggja fyrir hjá Barnavernd B. Þannig var hér ekki um það að ræða að þessar upplýsingar kæmu frá tilkynnanda. Það var hins vegar mat starfsmanns þegar hann tók niður tilkynninguna að þetta væru viðbótarupplýsingar sem mikilvægt væru að kæmu fram.

Með vísan til framangreind er beiðni um afléttingu nafnleyndar synjað.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 29. mars 2021. Með bréfi, dags. 30. mars 2021, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Barnaverndar B vegna kærunnar. Greinargerð Barnaverndar B barst með bréfi, dags. 10. maí 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. maí 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd velferðarmála leggi það tafarlaust fyrir [Barnavernd B] að aflétta nafnleynd vegna umræddrar tilkynningar.

Fram kemur í kæru að umrædd tilkynning sé dagsett 15. febrúar 2021. Krafa um afléttingu nafnleyndar hafi verið sett fram þann 25. febrúar 2021 ásamt rökstuðningi fyrir því að tilkynningin væri tilhæfulaus og röng. Miklir hagsmunir séu í húfi fyrir kæranda sem hafi ítrekað sætt undarlegum, nafnlausum tilkynningum sem ekki eiga við rök að styðjast. Þá hafi málsmeðferð barnaverndarnefndar í máli kæranda verið óréttmæt. Fyrst og fremst sé þar vísað til ítrekaðra rangfærslna, ósanninda og afbökunar staðreynda kæranda í óhag sem sé að finna í skýrslum og gögnum sem stafa frá embættinu. Vistun barns utan heimilis hafi verið beitt, þrátt fyrir að starfsmenn hafi vitað að stúlkan væri óhult og kærandi væri edrú. Lögregluleit hafi staðið yfir vegna úrskurðar barnaverndar um vistun barns utan heimilis, án þess að rætt hafi verið við barnið og það þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir kæranda um að slíkt yrði gert. Við þessar óvenjulegu aðstæður hafi borist barnaverndartilkynning undir nafnleynd með upplýsingum sem eingöngu barnaverndarnefnd, lögreglan, kærandi og lögmaður hennar höfðu vitneskju um. Upplýsingar í þeirri nafnlausu tilkynningu hafi síðan verið notaðar til að siga lögreglu á kæranda og “rökstyðja” að starfsmenn barnaverndar teldu að öryggi barnsins væri teflt í tvísýnu.

Meðal annars vegna þessara upplýsinga í tilkynningunni, sem engir nema framanritaðir bjuggu yfir, krafðist lögmaður kæranda afléttingar nafnleyndar. Barnavernd tók sér yfir 20 daga til að rannsaka málið. Rökstuðningur barnaverndar fyrir ákvörðun sinni barst þann 19. mars 2021 en ekki sé hægt að ráða af bréfinu að nein rannsókn hafi farið fram, þannig komi til dæmis ekki fram að rætt hafi verið við tilkynnanda eða nokkur reki gerður að því að finna út hvort tilkynnandi hafi verið í aðstöðu til að vita nokkuð um hagi kæranda. Í bréfinu komi hins vegar fram að þegar tilkynningin barst hafi starfsmaður Barnaverndar B (móttakandi tilkynningar) prjónað við efni tilkynningarinnar og þannig sett inn í þessa nafnlausu tilkynningu upplýsingar sem ekki stöfuðu frá tilkynnandanum sjálfum. Var þá vísað til þeirra upplýsinga sem lögmaður kæranda gerði athugasemdir við í kröfu um afléttingu nafnleyndar. Enga aðgreiningu sé að finna í þessari nafnlausu tilkynningu, þ.e. hvaða upplýsingar stafa frá tilkynnandanum og hvaða upplýsingar stafa beinlínis frá barnavernd sjálfri. En ljóst megi greina af þessu bréfi barnaverndar að umrædd nafnlaus tilkynning stafar frá barnavernd sjálfri, að minnsta kosti að hluta til. Efni þeirrar tilkynningar hafi síðan verið notað til að siga lögreglu á kæranda og dóttur hennar á sama tíma og barnavernd hafði enga aðra ástæðu til að ætla að neitt væri að öryggi eða velferð barnsins.

Það verði að teljast furðuleg vinnubrögð hjá stjórnsýslustofnun að eiga við “nafnlausar” tilkynningar og koma þannig að upplýsingum frá starfsfólki í nafni tilkynnanda og það tilkynnanda sem nýtur nafnleyndar gagnvart þeim sem íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir beinast að. Ef slíkt verklag viðgengst geta barnaverndarnefndir einfaldlega bætt eigin grunsemdum eða hugarórum við raunverulegar tilkynningar. Þá sé engin leið að sjá hvaða upplýsingar (í skýrslum, bókunum, tilkynningum og fleiru) stafa raunverulega frá öðrum aðilum og hvaða upplýsingar séu raunverulegar og réttar. Lögmaður kæranda hafi þegar staðið starfsmenn barnaverndar í þessu máli að því að greina ranglega frá innihaldi “samtals” við deildarstjóra E, kæranda í óhag. Í ljósi þess sem á undan sé gengið komi þetta þó ekki á óvart og staðfestir aðeins grun lögmannsins um að tilkynning þessi hafi verið að hluta eða jafnvel öllu leyti komin frá starfsfólki Barnaverndar B en ekki utanaðkomandi tilkynnanda. Það að barnaverndarnefnd staðfesti að átt hafi verið við tilkynninguna innanhúss gefi enn frekara tilefni til kröfu um afléttingu nafnleyndar. Því til viðbótar vísi lögmaður kæranda til röksemda sinna til barnaverndar um afléttingu þessarar nafnleyndar sem þegar dugi til slíkrar afléttingar. Aflétting nafnleyndar sé ekki dauður lagabókstafur. Verndarhagsmunir kæranda sem og almannahagsmunir krefjast þess að starfsmönnum barnaverndar sé ekki heimilt að prjóna við efni nafnlausra tilkynninga sem síðan séu notaðar gegn skjólstæðingum nefndarinnar og til að “styðja við” þvingandi aðgerðir barnaverndar.

Í umræddri tilkynningu er því haldið fram að kærandi hafi sést í tilteknu bæjarfélagi með barnsföður sínum “sem hún hefur tilkynnt til lögreglu fyrir ofbeldi” gegn sér. Starfsmenn barnaverndar hafi svo notað þessa tilkynningu sem rök fyrir því að þeir telji öryggi barnsins teflt í tvísýnu og séu þar væntanlega að vísa til þessa ofbeldismanns sem þar að auki sé í neyslu. Hins vegar sýna gögn málsins að á sama tíma (sama dag og tilkynning barst) voru starfsmenn barnaverndar í beinum tölvupóstsamskiptum við þennan umrædda mann. Starfsmenn barnaverndar hafi ekki séð ástæðu til að spyrja hann hvort hann væri með kæranda og dóttur þeirra, enda telur lögmaður að þeir hafi vitað að svo hafi ekki verið. Samt sem áður fullyrða starfsmenn við lögreglu um meintar grunsemdir um slíkt og nota það í fyrrgreindum tilgangi.

Lögmaður kæranda telur öll rök hníga að því að Barnaverndarnefnd B og/eða starfsmenn Barnaverndar B hafi beitt brotlegum aðferðum við meðferð þess barnaverndarmáls sem meint tilkynning lýtur að. Gögn barnaverndarnefndar um málið séu full af rangfærslum sem ekki hafi fengist leiðréttar, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar. Vísast þar til kvörtunar til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 15. janúar 2021, vegna úrskurðar Barnaverndarnefndar B um umgengni kæranda við dóttur sína. Greinilegt sé einnig að upplýsingum hafi markvisst verið haldið frá lögmanni kæranda, rangar upplýsingar verið gefnar um fjölda dagála og dagálar sem fela í sér mikilvægar upplýsingar ekki afhentir fyrr en eftir langa og harða baráttu.

Kærandi telji að þegar barnavernd hafi verið staðin að því að prjóna við efni nafnlausrar tilkynningar, sem þar að auki sé röng að efni til, sé uppfyllt það skilyrði 2. mgr. 19. gr. bvl. að sérstakar aðstæður mæli gegn nafnleynd. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar njóti þeir sem afskipti hafa af börnum stöðu sinnar vegna ekki nafnleyndar en undir það falla starfsmenn Barnaverndar B. Upplýst sé að hluti hinnar nafnlausu tilkynningar stafar frá slíkum starfsmanni. Auk þess hafi barnaverndarnefnd brotið gegn rannsóknarskyldu sinni samkvæmt barnaverndarlögum sem og 10. gr. stjórnsýslulaga með því að engin rannsókn fór fram á hinni meintu tilkynningu líkt og skylt sé.

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Í greinargerð Barnaverndar B kemur fram að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í greinargerð Barnaverndar B kemur fram að um sé að ræða X ára gamla stúlku sem lýtur forsjá kæranda. Faðir stúlkunnar hefur ekki forsjá. Foreldrar hafa ýmist verið sundur eða saman frá fæðingu hennar. Málefni stúlkunnar hafa verið til könnunar og meðferðar á grundvelli bvl. nær samfellt frá árinu 2016. Barnavernd hafi á tímabilinu borist 22 tilkynningar er varði fíkniefnaneyslu kæranda og vanrækslu stúlkunnar. Í málinu hafi verið gerðar samtals átta áætlanir um meðferð máls þar sem unnið hafi verið að edrúmennsku kæranda og bættum uppeldisaðstæðum stúlkunnar.

Barnavernd B hafi borist tilkynning undir nafnleynd þann 15. febrúar 2021 þess efnis að áhyggjur væru af stúlkunni í umsjá kæranda, en fram kom hjá tilkynnanda að viðkomandi grunaði að faðir telpunnar væri með móður og barni á D. Á þeim tíma hafi verið í gildi úrskurður barnaverndarnefndar frá 10. febrúar 2021 þess efnis að stúlkan skyldi vistuð utan heimilis á meðan forsjársviptingarmál væri rekið fyrir dómstólum á hendur kæranda. Ekki hafi verið unnt að framfylgja úrskurði nefndarinnar þar sem kærandi hafi verið í felum með stúlkuna. Barnavernd hafði ekki upplýsingar um dvalarstað eða aðstæður stúlkunnar og kæranda þegar að tilkynningin barst þann 15. febrúar. Fyrir lá að barnavernd hafði á þessum tíma upplýsingar um að móðir hafði kært föður stúlkunnar til lögreglu fyrir ofbeldi. Þar sem þær upplýsingar lágu fyrir hjá barnavernd, hafi það verið tekið fram í skráningu tilkynningarinnar. Barnavernd neiti þeim ásökunum sem fram koma í kæru lögmanns kæranda þess efnis að starfsmenn barnaverndar hafi prjónað við efni tilkynningar og að tilkynningin hafi komið frá starfsmanni barnaverndar. Barnavernd tók efni tilkynningarinnar alvarlega og óttast var um öryggi stúlkunnar. Eins og kærandi tók fram í greinargerð sinni voru upplýsingar um að faðir stúlkunnar væri ofbeldismaður og að auki í neyslu vímuefna. Þegar tilkynningin barst hafði hvorki kærandi né lögmaður hennar viljað gefa barnavernd upplýsingar um það hvar kærandi og stúlkan væru niðurkomnar. Starfsmaður barnaverndar taldi mikilvægt að bæta umræddum upplýsingum við skráningu tilkynningarinnar og það hafi verið mat starfsmannsins að upplýsingarnar skiptu máli varðandi velferð og aðstæður stúlkunnar.

Í beiðni lögmanns kæranda frá 25. febrúar 2021 fór lögmaðurinn fram á það að Barnavernd B aflétti nafnleynd á tilkynningunni sem barst barnavernd þann 15. febrúar 2021. Vísaði lögmaðurinn til þess að tilkynningin væri tilhæfulaus og röng ásamt því að málsmeðferð Barnaverndarnefndar í máli umbjóðanda síns væri óréttmæt. Beiðni um afléttingu nafnleyndar var synjað þann 19. mars 2021 með vísan til þess að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem áskildar séu til þess að aflétta megi nafnleynd, sbr. 19. gr. bvl. Barnavernd taldi því að ákvæði 19. gr. væri ekki uppfyllt og við það mat voru meðal annars höfð til hliðsjónar þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum með 19. gr. frumvarpsins til barnaverndarlaga og eru eftirfarandi:

"Þegar rætt er um nafnleynd tilkynnanda í barnaverndarmálum vegast einkum á þrenns konar sjónarmið.

Í fyrsta lagi sjónarmið um réttláta málsmeðferð. Samkvæmt þeim hefur aðili máls rétt til að vita hver tilkynnti um ófullnægjandi aðbúnað barns. Það kann að skipta hann miklu máli til þess að andmælaréttur hans nýtist að fullu. Sé lögð áhersla á þetta sjónarmið leiðir það til þess að gera verður ráð fyrir því sem meginreglu að aðili eigi rétt á að vita hver tilkynnandi er. Er gengið út frá þeirri meginreglu í þessu frumvarpi.

Í öðru lagi koma til þau sjónarmið sem varða vernd tilkynnanda. Þá er lögð áhersla á það sjónarmið að tilkynnandi sjálfur, sem er ekki að gera annað en að gæta hagsmuna tiltekins barns og um leið opinberra hagsmuna, eigi rétt á því að vera laus við þau óþægindi sem vitneskja aðila kann að hafa í för með sér fyrir tilkynnanda.

Í þriðja lagi koma síðan til athugunar sjónarmið sem varða virkni og árangur í barnaverndarstarfi. Því er haldið fram að sé tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd muni það fæla þá frá því að tilkynna. Afleiðingin yrði sú að barnaverndarnefnd fengi ekki upplýsingar um hagi barna þótt full þörf kynni að vera á afskiptum hennar. Tvö síðarnefndu sjónarmiðin eru augljóslega tengd.

Í ákvæðinu er farin sú leið að byggja á nafnleynd tilkynnanda sem aðalreglu með sama hætti og gert er í gildandi lögum. Það byggist á því að sjónarmiðið um virkni og árangur í barnaverndarstarfi vegi þyngst þeirra sjónarmiða sem kynnt voru hér að framan. Nauðsynlegt er að upplýsingar um aðbúnað barna berist greiðlega til barnaverndarnefndar. Jafnframt er byggt á því sjónarmiði, sem er tengt hinu fyrrnefnda, að verði tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd mundi það fæla þá frá að tilkynna. Afleiðingin yrði sú að barnaverndarnefnd fengi ekki upplýsingar um hagi barna þótt full þörf væri á afskiptum hennar. Ákvæði núgildandi laga og frumvarpsins um nafnleynd endurspegla sérstöðu barnaverndarmála innan stjórnsýslunnar, að börn eru ekki talin þess umkomin að gæta hagsmuna sinna sjálf með því að snúa sér til barnaverndaryfirvalda.......".

Barnavernd B telji mikilvægt að virða þá meginreglu sem felst í 19. gr. bvl. að tilkynnandi njóti nafnleyndar. Almenningur hafi tilkynningarskyldu samkvæmt 16. gr. bvl. ef ástæða sé til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisástæður, verði fyrir ofbeldi eða heilsu þess og þroska sé stofnað í hættu. Fái tilkynnandi ekki að njóta nafnleyndar, sbr. 19. gr., skapast sú hætta að almenningur fælist frá því að senda tilkynningar til barnaverndar með þeim afleiðingum að barnavernd fái ekki upplýsingar um hagi barna, þótt full þörf væri á afskiptum hennar. Hagsmunir barnaverndarstarfsins í heild verði að vega þyngra en hagsmunir einstakra málsaðila af því að fá nafnleynd tilkynnanda í máli sínu aflétt.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar þá ákvörðun Barnaverndar B að hafna kröfu kæranda um að nafnleynd verði aflétt vegna tilkynningar sem barst barnavernd 15. febrúar 2021.

Kærandi telur að tilkynning hafi verið tilhæfulaus og röng. Þá telur kærandi að  viðbótarskráning starfsmanns á upplýsingum um kæru móður á hendur föður vegna ofbeldis valdi því að aflétta skuli nafnleynd.

Reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. bvl. og tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram koma í 16. gr. sömu laga.

Í 1. mgr. 16. gr. laganna er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.

Í 2. mgr. 19. gr. bvl. kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla kemur einnig fram í 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Þar segir að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að nafnleynd verður ekki aflétt nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því.

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um ætlaðar óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á þeim að hefja ekki könnun máls, nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til þess, sbr. 5. mgr. 21. gr. bvl.

Mál kæranda hefur verið í vinnslu hjá barnaverndarnefndinni frá árinu 2016 og þegar umrædd tilkynning barst Barnavernd B var í gildi úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 10. febrúar 2021 um vistun stúlkunnar utan heimilis. Ekki var mögulegt að framfylgja úrskurði um vistun stúlkunnar þar sem ekki var vitað um dvalarstað hennar.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. bvl. er meginreglan sú að nafnleyndar skuli gætt varðandi tilkynningar samkvæmt 16. gr. laganna og  þurfa sérstakar ástæður að vera fyrir hendi til að nafnleynd sé ekki virt. Ekki verður talið að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í því máli sem hér um ræðir að þær réttlæti að nafnleynd sé aflétt. Þá verður ekki fallist á að viðbótarskráning starfsmanns valdi því að aflétta skuli nafnleynd en upplýst hefur verið hvaða upplýsingar starfsmaður bætti við tilkynninguna. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Varðandi kvörtun kæranda á skráningu starfsmanns/móttakanda tilkynningar hjá Barnavernd B vísar úrskurðarnefndin til lögbundins eftirlits Barnaverndarstofu með barnaverndarnefndum, sbr. 8. gr. bvl., og bendir kæranda á að þangað er hægt að leita og leggja fram kvartanir yfir meðferð einstakra mála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B frá 19. mars 2021 um að synja kröfu A, um að aflétta nafnleynd af tilkynningu vegna dóttur sinnar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum